sunnudagur, 11. desember 2011

Föndurstund

Fléttaðir jólapokar.
Glimmer, glansmyndir og gulnaður pappír.


miðvikudagur, 23. nóvember 2011

mánudagur, 21. nóvember 2011

Afvegaleiðsögn

Af hverju þykir það neikvætt að afvegaleiða þegar það þýðir í raun bara að vera leiddur út af veginum.

Í tilefni af 20 ára afmæli fræðsludeildar listasafns Reykjavíkur vorum við Ingibjörg og Anna Hrund fengnar til að vera með stuttar hádegisleiðsagnir á Kjarvalsstöðum í þessari viku. Við ákváðum að bjóða upp á afvegaleiðsagnir. Þær tengjast sýningunum í safninu ekki neitt og eru spunnar af fingrum fram en gefa vonandi smá innsýn í lífið utan vegar.

Fyrsta afvegaleiðsögnin fór fram í dag.



miðvikudagur, 9. nóvember 2011

Bálköstur

...

Þessi elska hangir víst uppi á vegg í London.

Þetta er ósköp kyrrlát mynd og því kann það að koma á óvart að meðan á myndatöku stóð óttaðist ég um líf mitt og limi. Þetta er tekið á leiðinni út á Látrabjarg og þarna er gríðarlegt kríuvarp. Um leið og ég steig út úr bílnum með myndavélina réðust þær að mér úr öllum áttum svo ég rétt komst inn í bíl aftur. Gerði svo viðeigandi ráðstafnir meðan kríurnar byrjuðu að gogga í bílinn. Vafði peysu um höfuðið og svo skriðum við Birkir út og löbbuðum þessa fimm metra frá bílnum nánast í faðmlögum, ég með hendur og auga á myndavélinni og hann veifandi tveimur göngustöfum upp í loft okkur til varnar. Hávaðinn var rosalegur.

Ég smellti bara af tveimur römmum (enda tímafrekt að taka mynd á þessa elsku) og flúði svo aftur inn í bíl. Og var ofboðslega spennt að sækja filmuna í framköllun til að vita hvort þetta hefði lukkast.

Það var bara eitthvað við þennan bálköst þarna í fjörunni sem mér fannst svo fallegt...
og svo er það þessi græni litur...

föstudagur, 4. nóvember 2011

laugardagur, 1. október 2011

Úr kassanum hans afa

...

Ég veit ekki hver sagan er á bak við þessa mynd.

Hún kemur úr kassa sem Rósberg afi minn átti og er fullur af gömlum myndum og filmum.

Mér finnst hún eitthvað svo dásamleg.

Hópur af ferðafólki stillir sér upp, líklega fyrir myndatöku en ljósmyndarinn sem tekur þessa mynd fylgist með í fjarska og tekur þannig mynd af myndatökunni. Svo er eins og rútan ætli að stinga af.

Og fossinn sem er svo fallegur, er á leiðinni út úr rammanum hinum meginn.

Bjútífúl.

þriðjudagur, 27. september 2011

Skúffufólkið



Stundum er sagt að maður deyi tvisvar.
Fyrst þegar hjartað hættir að slá og svo aftur þegar enginn þekkir mann lengur á ljósmynd.

Það er skúffa í antíkversluninni Fríðu frænku sem er full af gömlum ljósmyndum. Myndum af fólki sem hefur orðið viðskila við samhengi sitt. Dottið út úr fjölskyldualbúmunum og einhverra hluta vegna endað nafnlaust ofan í þessari skúffu þar sem fólk getur gramsað og keypt það.

Ég fer stundum þangað og freistast yfirleitt til þess að taka eitthvað af þessu fólki með mér heim.

Það gerðist síðast í gær. Þá bjargaði ég konu á peysufötum með litla stúlku í fanginu, ungum myndarlegum manni, þremur fallegum og spariklæddum litlum stelpum, fimm herramönnum á stuttbuxum í fjallgöngu, tveimur litlum stuttklipptum telpum, hressum hóp fólks í ferðafötum sem hefur stillt sér upp í tré fyrir ljósmyndarann og
tveimur stúlkum í peysufötum (sem ég hef ákveðið að séu systur en veit annars ekkert um annað en að þær hafa rambað inn á ljósmyndastofu G. Aug. Guðmundssonar á Ísafirði einhverntímann).

Við tökum myndir til þess að muna, festa fólk, atburði og staði í minni og forða því þannig frá gleymsku og dauða.
En hvað gerist þegar enginn man lengur?


þriðjudagur, 30. ágúst 2011

Nammi namm...

Einu sinni kunni ég ekki að elda neitt nema popp og ristað brauð. Nú bý ég til bestu pítsu í heimi...

...að eigin dómi.


sunnudagur, 28. ágúst 2011

Litla brúðurin



Fríða systir hefur alltaf haft áhuga á tísku og fötum.

Stundum klæddi hún okkur litlu systur sínar upp og tók myndir. Það var gaman.

Ég held ég sé 6 ára á þessari mynd. Búið að dressa mig upp í ókláraðan kjól sem Fríða (þá 15 ára) var að sauma sér. Rauða gervirósin var alltaf í vasa inní stofu og perluarmbandið er í raun plasthálsfesti af ponyhesti.

Þetta er tekið inní herberginu hennar Fríðu og lýsingin er einhvernveginn alveg fullkomin þó hún komi bara frá standlampanum sem hún fékk í fermingargjöf.

Hún sendi þessa mynd í ljóstmyndasamkeppni Æskunnar og vann.

þriðjudagur, 16. ágúst 2011

BRÚÐKAUP

Ég tók Holguna með í brúðkaup Kollu og Egils um helgina.




föstudagur, 5. ágúst 2011

Kveldúlfur - sjónsuða
























Það var opnun hjá okkur á Hjalteyri um síðustu helgi.

Ég safnaði dóti



Fleiri myndir hér.

sunnudagur, 26. júní 2011

Kannski smá klisja



Annars fór ég með filmur í framköllun fyrir helgi. Get ekki beðið eftir að sækja þær á morgun.

Það eru sko myndir frá Feneyjum.

föstudagur, 24. júní 2011

þriðjudagur, 21. júní 2011

laugardagur, 21. maí 2011

þriðjudagur, 17. maí 2011

Heyr á Endemi

Ég hef vanrækt þessa síðu undanfarið. En blaðið okkar, Endemi er komið út. Við erum bara ansi kátar með það.

föstudagur, 22. apríl 2011

Síðbúin afmælisgjöf

Anna Rósa gaf mér minningakassa, fullan af minningum frá þessum 30 árum sem við höfum þekkst.



Þar leyndist meðal annars ljósrit af bréfi sem ég sendi Önnu Rósu 5. nóvember 1985. Þá var ég fjögurra og hálfs árs.



Þarna stendur:

Sæl Anna

Í fyrradag fór ég til tannlæknis.
Ég lét líka tæma sparibaukinn minn.

Bless Tóta