þriðjudagur, 22. mars 2011

Allt búið...

...sýningunni okkar í Kling og Bang er lokið. Í gær tókum við niður og löguðum til.

...og ég tók myndir af kökuskrautinu sem datt í gólfið.Annars endaði þetta allt saman í stjörnuljósadýrð á laugardagskvöldið. Það var fallegt.

Svo skellti ég nokkrum myndum af sýningunni inn á heimasíðuna mína

fimmtudagur, 17. mars 2011

Í gær...

... borðaði ég bunch með góðri vinkonu á Gráa kettinum og hjálpaði Birki í flugvélabrasi.Flugvélainnvols er fallegt.mánudagur, 14. mars 2011

Árshátíð

Við héldum árshátíð í Kling og Bang á föstudagskvöldið.

Það var gaman.

Konfettí og litrík kerti. Dásamlega ljúffengur matur sem Anna Hrund og Ingibjörg töfruðu fram. Og svo kom Logi og spilaði á gítarinn.

þriðjudagur, 8. mars 2011

Sprengidagur...

... og allt var hvítt í dag.

Fótspor í snjónum

og fingraför í kartöflumjölinu...mánudagur, 7. mars 2011

Bolludagur...

...og ég bakaði bollur og keypti mér skó.

MARGLAGA - skynjunarskóliÉg hafði hugsað mér að skrifa hérna langa færslu um sýninguna okkar. Svo bara vissi ég ekki alveg hvað ég ætti að segja. Ég gæti nefnilega skrifað heila ritgerð... Í staðinn ákvað ég að skella hingað inn ræðunni sem ég flutti á opnuninni. Þetta er sem sagt setningarræða skynjunarskólans.

-----------------

Komið öll sæl og blessuð
Við sem stöndum að þessari sýningu viljum byrja á því að bjóða ykkur öll hjartanlega velkomin og þakka ykkur fyrir komuna.

Við erum eins og þið eflaust flest útskrifuð úr ýmsum skólum. Frá barnsaldri höfum við þekkt mikilvægi þess að læra, vita, kunna og skilja. Við höfum fyllt höfuðið af dásamlegum staðreyndum, lært að tileinka okkur ákveðinn orðaforða og ákveðna færni. Og ferðalag þekkingarinnar tekur engan endi. Við bætum í sarpinn á hverjum degi, lærum stöðugt nýja hluti til að brjóta heilann um...

En hvað um restin af búknum. Hvað um það sem við lærum ekki hérna inni (benda á hausinn) heldur finnum fyrir einhverstaðar hér...(leggja hönd á brjóst) eða hér...(leggja hönd á maga) og skiljum kannski ekki einu sinni alveg. Það að finna og skynja verður stundum útundan. Hvernig á líka að kenna okkur það? Það er ekkert eitt rétt svar til... enginn staðreyndabanki. Það eru til ákveðnar leiðir til að kenna fólki stærðfræðiformúlur, leggja á minnið flóknar reglur, .. en hvernig lærir maður að ná sambandi við innsæi sitt og sína eigin skynjun. Og það sem er kannski enn mikilvægara. Hvernig lærir maður að treysta henni, óháð því sem við vitum hér (benda á hausinn).

Við sem stöndum að þessari sýningu erum svo sem alls engir sérfræðingar í þessum efnum. Okkur langaði bara að læra meira og leyfa fleirum að koma með í það ferðalag. Og það er þess vegna sem þið eruð hér.

Það fylgja því engar skuldbindingar að skrá sig í þennan skynjunarskóla. Hér er engin mætingarskylda, engin lokapórf, engar einkunnir, enginn skólastjóri sem getur kallað okkur á teppið. Öllum er frjálst að koma eða fara þegar þeim sýnist. En auðvitað vonum við að fólk dvelji – því hvað er skóli án fólks?

Það að vera í skóla snýst líka ekki bara um það að mæta í kennslustundirnar á stundaskránni. Í bæklingnum sem þið eruð flest komin með í hendurnar er yfirlit yfir alla þá skipulögðu viðburði sem eru á dagskrá skólans en það er líka tilvalið að líta við þegar það er ekkert um að vera. Þá er góður tími til að melta og bara vera. Sem við gleymum stundum.

Kannski sjáið þið ykkur alls ekki fært að mæta. Það er allt í lagi. Þá er það samt von okkar að þið leiðið hugann, eins oft og þið getið, að því sem er hérna inni...(hönd á brjóst) Og farið kannski héðan út með örlítinn neista.

Skynjunarskólinn... þessi marglaga ... er settur!