þriðjudagur, 16. nóvember 2010

fimmtudagur, 11. nóvember 2010

Skissa

Ég er að reyna að kenna sjálfri mér á Photoshop... Ég er mjög óþolinmóður og pirrandi nemandi.

miðvikudagur, 13. október 2010

Töskuskissa

Mér blöskraði allt draslið í veskinu mínu svo ég ákvað að teikna það allt.

mánudagur, 6. september 2010

Gróðurhús

Fann filmu sem ég hafði aldrei skannað inn. Myndir sem ég tók af gróðurhúsum í niðurnýðslu í Hveragerði haustið 2008. Þetta er tekið í sömu ferð og þessar myndir hérna en einhverra hluta vegna fór síðasta filman ekki í framköllun fyrr en núna fyrir stuttu síðan.

Þetta er tekið á stóru mamiyuna hans Birkis.

Ég er alltaf dáltið ánægð með myndirnar úr þessari ferð. Það var eitthvað svo fullkomið veður til að taka myndir. Ég var sem sagt að skoða svona yfirgefna staði... og þetta gráa, hvorki né-veður bjó alveg til réttu stemninguna.

Ég ætti eiginlega að kaupa filmur og skella mér í myndatúr.


mánudagur, 30. ágúst 2010

Holga



Var að framkalla tvær filmur úr holgunni. Þessi mynd var tekin í brúðkaupi í fyrra sumar. Ég fílana.

Skissubókin...

...er sem betur fer ekki alveg tóm eftir sumarið.




... þó innblásturinn hafi ekki alltaf verið mikill :)

sunnudagur, 29. ágúst 2010

The Garden Project


Sigga og Anna Hrund voru með uppskeruhátíð í garðinum sínum við Hverfisgötuna í gær.

Snilldarverkefni!

Þetta byrjaði í fyrra þegar portið fyrir framan nemendagalleríið okkar, Kaffistofu, var tekið í gegn. Þar var bara möl og subbuskapur.

Svo héldu þær áfram í sumar og ræktuðu matjurtagarð á þakinu.

Garðurinn var opnaður á Villa Reykjavík fyrr í sumar. Þá var garðpartí þarna. Og það var líka opnaður skúlptúrgarður fyrir framan Kaffistofuna, á svæðinu sem var tekið svo vel í gegn í fyrrasumar. Matjurtagarðurinn á þakinu (sem er eiginlega þakið á gallerí Kling & Bang) var ekki síst hugsað sem garður fyrir fólkið þarna í nágrenninu. Það máttu allir koma og fá sér grænmeti og kryddjurtir.

Í gær var uppskeruhátíð. Fólk fór ekki tómhent heim heldur klyfjað af kartöflum, gulrótum, kóriander og oreganó. Og það fór heldur enginn svangur heim því inni í Kaffistofunni var elduð grænmetissúpa úr hráefninu úr garðinum og á grillinu fyrir utan kaffistofuna sem var hlaðið upp í fyrrasumar voru grillaðar kartöflur og annað góðgæti.

Já snilldarverkefni!

Það eru svo margir fletir á þessu... Ótrúlega skemmtilegt dæmi um hvernig er hægt að sameina myndlist og borgarumhverfi. Og fá fólk til að njóta á annan hátt en kannski með hefðbundnari listviðburði.

Já og svo gerðu þær bók um verkefnið. Það má skoða hana hér. Skemmtilegar greinar í henni m.a. eftir Hjálmar Sveinsson og Ármann Jakobsson.

*** *** *** ***
Ingvar Ragnarsson tók myndina hér að ofan fyrr í sumar. Ég stal henni af heimasíðu Villa Reykjavík.

laugardagur, 14. ágúst 2010

Filmurnar hans afa

Þetta er úr filmusafninu hans Rósbergs afa. Mamma á nokkur umslög full af svona gömlum negatívum. Myndir sem hann tók til dæmis á ferðalögum. Birkir valdi nokkrar af handahófi og skannaði inn.

Mér var ekki búið að detta í hug að þetta gæti verið efniviður. En auðvitað er það það. Ég veit ekkert hvar þessar myndir eru teknar eða hvaða fólk er á þeim... og það er einmitt það sem mér finnst svo skemmtilegt.





þriðjudagur, 10. ágúst 2010

Vinna

Ég hélt ræðu fyrir hönd myndlistarnema á útskrif Listaháskólans í vor.

Þar sagði ég að það að vera listamaður væri að stórum hluta ákvörðun. Maður fæðist ekki bara með hæfileika eða fer í listaháskóla og er þá sjálfkrafa orðinn listamaður. "Að vera listamaður er ákvörðun sem maður tekur, og það þarf kjark til að standa við hana" Já þetta sagði ég.

Þetta áttu auðvitað að vera uppörfandi orð til samnemenda minna um að láta ekki deigan síga. Það er nefnilega ekkert auðvelt að standa við þessa ákvörðun. Það er miklu meira öryggi fólgið í því að ákveða að vera ýmislegt annað, ýmislegt sem gefur fastar tekjur til dæmis.

Á þetta benti ég í þessari stuttu ræðu. Sagði að þetta ætti eftir að verða basl. Sum okkar myndu gefast upp. Aðrir verða værukærir í launuðu vinnunni sinni og þar fram eftir götunum.

Og hvað er ég búin að gera síðan ég hélt þessa ræðu fyrir tveimur mánuðum síðan?

Jú vinna!

Vinna, vinna vinna.

Ég leigi vinnustofu niðrí bæ sem ég hef sjaldnast tíma né orku til að heimsækja. Og ég hef ekki skrifað svo mikið sem einn staf á þetta blogg.

Sveiattan!

sunnudagur, 25. apríl 2010

Opnun útskriftarsýningar

Þá er opnunin afstaðin en vinna við lokaverkið heldur samt áfram.

Verkið "mitt" byggir á samstarfi níu myndistarnema (og eins mannfræðinema úr HÍ sem er að rannsaka okkur) sem ákváðu að vinna saman að einu lokaverki í stað þess að vinna hver í sínu horni og gera einstaklingsverk eins og venjan er.

Við höfum hreiðrað um okkur í Portinu í Hafnarhúsinu og þó þar sé vissulega margt að sjá núna er verkið ekki fullmótað. Þetta er verk í vinnslu, verkefni sem við hyggjumst vinna áfram að, með viðveru (og samveru) á staðnum allan tímann meðan á sýningunni stendur. Staðið verður fyrir fjölbreyttum viðburðum og ýmsum gestum verður boðið að taka þátt í verkinu.

Fylgist endilega með, komið aftur og aftur og stillið síðan á FM 106,5 þegar ykkur leiðist heima eða í bílnum.

Hér eru nokkrar myndir af verkinu sem teknar voru í fjörinu í gær.







mánudagur, 19. apríl 2010

Lokaspretturinn

Útskriftarsýningin verður opnuð í Hafnarhúsinu kl. 14 á laugardaginn... Það er sem sagt farið að sjá fyrir endann á þessari skólagöngu.

Allir að mæta!

sunnudagur, 21. mars 2010

Innblástur dagsins...

...já eða innblástur gærdagsins kannski öllu heldur. Tók Das Leben der anderen hjá vinum mínum á Laugarásvídeó í gærkvöld.

Var aldrei búin að sjá hana.

Þetta er með betri myndum sem ég hef séð lengi. Virkilega áhrifarík saga og bara flott mynd í alla staði.

Mæli með henni.

laugardagur, 20. mars 2010

Þá byrjar það

Ég trúi á endurkomu bloggsins.

Einu sinni var það skemmtilegur vettvangur. Svo dróst það niður í svaðið og að lokum leysti Facebook það af hólmi.

En bloggið er ekkert dautt og það er í rauninni ótrúlega sniðugt fyrirbæri. Ég ætla að nýta mér það núna. Setti upp þessa fínu heimasíðu um daginn og fannst allt í einu að ég þyrfti að vera með blogg samhliða henni. Þannig að ég rifjaði upp kynni mín af blogger og bjó mér til glænýtt blogg.

Þetta á vera artý blogg. Bara svo það sé á hreinu...

Og þótt ég sé merkilega slungin í heimasíðugerð (svoa miðað við almenna tölvufötlun mína að flestu öðru leyti) þá hefur mér gengið eitthvað illa að gera þetta blogg að undirsíðu á heimasíðunni minni. Þarf að grúska aðeins meira í þessum Html kóðum.