laugardagur, 16. febrúar 2013

Roman SignerOg eitt í viðbót af því þetta er allt saman svo fallegt, fyndið og brillíjant!Meira um Roman Signer hér

sunnudagur, 10. febrúar 2013

Mundu mig ég man þig


Ég rétt náði í skottið á póesíbókamenningunni sem krakki. Kannski var þetta mismunandi eftir skólum en við stelpurnar í Þelamerkurskóla áttum alla vega margar hverjar svona bækur sem við létum ganga á milli. Í þær voru teiknaðar myndir og skrifaðar vísur og heilræði. Yfirleitt það sama... aftur og aftur. Mundu mig, ég man þig... lifðu í lukku en ekki í krukku... o.s.frv.

Nýlega erfði ég tvær eldgamlar póesíbækur. Aðra þeirra (þessa bláu) átti Jóhanna Albertsdóttir, langamma mín á Syðra Hóli og hina átti Arnbjörg Sigurðardóttir, langafasystir mín frá Dagverðareyri.

Það er ekki mikið skrifað í bókina hennar Jóhönnu. En þó eitthvað – og það sem er allra skemmtilegast er að langafi, Magnús Björnsson, hefur skrifað í hana þann 11. mars árið 1914 sem hefur verið 17 ára afmælisdagur Jóhönnu. Þá var hann að ég held kennarinn hennar, 25 ára gamall og kannski orðinn pínu skotinn í henni en þau giftu sig þremur árum síðar.

Bókin hennar Arnbjargar er þéttskrifuð. Nú veit ég ósköp lítið um þessa langafasystur mína annað en að hún dó ógift og barnlaus og hvílir við hliðina á pabba mínum í kirkjugarðinum í Glæsibæ. Hún var fædd árið 1891 og bókin virðist hafa verið í umferð árin 1912 til 1913 þegar hún er rúmlega tvítug. Mig grunar að hún hafi kannski verið einhversstaðar í skóla þennan vetur, án þess þó að ég viti það.

Í bókina skrifa bæði stelpur og strákar. Yfirleitt eru þetta vísur og ljóð eftir þekkta eða óþekkta höfunda og þarna er vitnað í allt frá Hávamálum til spakmæla á ensku! Og Kristján fjallaskáld hefur verið ofboðslega vinsæll. Sumt er greinilega frumort og sumir skrifa undir dulnefni eins og Villigölturinn sem skrifar þessa vísu í bókina:

Ef þú kæra, kyssir mig
kætist brjóstið fremur,
eina skal ég elska þig
uns önnur skárri kemur.


Ég held að póesíbækur séu ekki til lengur. Líklega tók facebook við þessu eins og öllu öðru... Að skrifa í póesíbók er kannski bara eins og að skrifa á vegginn hjá einhverjum og deila "kvótum". Og kannski var langafi bara að "póka" langömmu með þessum vísum sem hann skrifaði.