mánudagur, 27. október 2014

Af jörðu ertu kominn...

Ég get ekki tekið turnana mína með mér til Íslands... og það er ekki pláss fyrir þá alla í galleríinu... Svo ég fór með tvo þeirra aftur í Volkspark Friedrichshain og skildi þá þar eftir.

Þeir eru smíðaðir úr efni sem ég fann þar... svo ég er bara að skila því aftur á sinn stað, eftir að hafa átt svolítið við það. Kannski finnir einhver þá og tekur þá með sér heim. Kannski ekki.


...

miðvikudagur, 15. október 2014

Hrúgur

Birkir segir stundum að ég kunni ekki að laga til... ég færi bara til hrúgur. Ég tel mig hafa erft þennan eiginleika frá föður mínum og veit ekki alveg hvort þetta er eitthvað sem ég á að venja mig af.

Svo eru sumar hrúgur líka bara svo fallegar.

laugardagur, 11. október 2014

Laugardagskvöld límbyssueiganda í Berlín


Open studio


Í gærkvöld var ég með litla sýningu eða eiginlega frekar opna vinnustofu í Tapir galleríinu hér í Berlín sem er rekið af sama fólki og er með Takt listamannaresidensíuna sem ég dvel í. Tina Hopp var með opnun í aðalrýminu þar sem hún sýndi verkin sín en ég setti dótið mitt upp í næsta rými. Þetta var svona sýnishorn af því sem ég hef verið að gera hérna í Berlín - með áherslu á austur þýsku varðturnana mína.

miðvikudagur, 8. október 2014

Gamlar myndir

Á mörkuðunum hér í Berlín er hægt að kaupa fullt af gömlum ljósmyndum. Heilu fjölskyldualbúmin hafa endað á flóamarkaði þar sem hver sem er getur keypt þau fyrir nokkrar evrur. Svona myndir hafa alltaf heillað mig, samanber þessar pælingar hér.

Um daginn gramsaði ég í einum svona myndakassa á markaðnum og þrjár litlar myndir fönguðu athygli mína.

Ég veit ekki alveg hvað ég ætla að gera við þær... eða hvort ég ætla yfir höfuð að gera eitthvað við þær. Kannski eitthvað svona:

laugardagur, 6. september 2014

Markaður

Á laugardögum er markaður á Boxhagener Platz. Þar er hægt að kaupa allt milli himins og jarðar: Ávexti, sokka, bækur, kjöt, ost, blóm, nærbuxur, sultur, skartgripi, pylsur og púrtvín.

Og þegar það er 27 stiga hiti og sól safnast fólk saman í garðinum og slappar þar af, jafnt fjölskyldufólkið sem bæjarrónarnir. Krökkt af fólki út um allt - og sumt lenti í skyssubókinni minni.